Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.

Þingskjal 231  —  185. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999,
með síðari breytingum (stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra).

(Lagt fyrir Alþingi á 143. löggjafarþingi 2013–2014.)




1. gr.

    Lokamálsliður 4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    3. tölul. 5. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skipar stjórn sjóðsins. Skal einn stjórnarmaður tilnefndur af Landssambandi eldri borgara, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn af fjárlaganefnd Alþingis. Einn stjórnarmaður skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „2. mgr.“ í 2. málsl. 3. mgr. og 6. mgr. kemur: 3. mgr.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: 4. mgr.
     d.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Framlög skv. 3. mgr. og húsaleiga skv. 4. mgr. eru ekki veitt nema ráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra annast stjórn sjóðsins. Stjórnin hefur sérstakan ritara og skal kostnaður við störf stjórnarinnar greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerir árlega tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

5. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna bætist: sem fer með málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var unnið í velferðarráðuneytinu. Tilefni þess er að með forsetaúrskurði nr. 72 frá 24. maí 2013 um skiptingu starfa ráðherra voru verkefni velferðarráðuneytis falin tveimur ráðherrum, félags- og húsnæðismálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Samkvæmt úrskurðinum fer félags- og húsnæðismálaráðherra með málefni aldraðra. Heilbrigðisráðherra fer þó með málefni sem varða hjúkrunarheimili, dvalarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Samkvæmt 4. gr. laga um málefni aldraðra skipar ráðherra fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra og hefur hún skv. 5. gr. laganna eftirtalin verkefni: að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra, að vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra, að stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum. Þegar samstarfsnefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra tekur fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis sæti í henni.
    Eins og nú háttar til fer samstarfsnefnd um málefni aldraðra með málefni sem heyra undir báða ráðherrana. Því er talið nauðsynlegt að taka málefni framkvæmdasjóðsins undan samstarfsnefnd um málefni aldraðra og fela þeim ráðherra sem fer með málefni framkvæmdasjóðsins að skipa sérstaka stjórn sjóðsins sem hafi það hlutverk að stjórna sjóðnum og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr honum.
    Lagt er til að sá ráðherra sem fer með málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra skipi fjóra fulltrúa í stjórn sjóðsins. Skipan samstarfsnefndar um málefni aldraðra verði óbreytt og verkefni hennar þau sömu og nú að öðru leyti en því að málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra verði falin stjórn sjóðsins.
    Í frumvarpi þessu felst einungis sú breyting að það verkefni samstarfsnefndar um málefni aldraðra að annast stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra verði falið sérstakri stjórn sjóðsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að lokamálsliður 4. gr. laganna falli brott. Þar sem ætlunin er að færa umsjón Framkvæmdasjóðs aldraðra frá samstarfsnefndinni þykir óeðlilegt að hann beri kostnað vegna starfa hennar. Þá þykir ekki þörf á því að kveða sérstaklega á um ritara nefndarinnar í lögum.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að 3. tölul. 5. gr. laganna falli brott enda er gert ráð fyrir að þetta hlutverk samstarfsnefndar um málefni aldraðra verði falið sérstakri stjórn sjóðsins.

Um 3. gr.


    Lagt er til að á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna komi ný málsgrein um skipan stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í stjórninni verði fjórir fulltrúar, sem skipaðir verði með sama hætti og samstarfsnefnd um málefni aldraðra er nú þegar hún fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra að öðru leyti en því að ekki verði fulltrúi frá Öldrunarráði Íslands í stjórninni og ráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar í stað tveggja nú.
    Með ráðherra í greininni er átt við þann ráðherra sem fer með málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Um 4. gr.


    Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á 11. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra annist stjórn sjóðsins í stað samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Í öðru lagi er lagt til að 2. málsl., þar sem kveðið er á um setu fulltrúa fjárlaganefndar Alþingis í samstarfsnefndinni, falli brott enda er gert ráð fyrir því í 3. gr. frumvarps þessa að hann eigi sæti í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Í þriðja lagi er lagt til að hér verði kveðið á um að stjórnin hafi sérstakan ritara og að kostnaður við störf hennar verði greiddur úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta ákvæði kemur í stað sambærilegs ákvæðis í lokamálslið 4. gr. þar sem fjallað er um samstarfsnefnd um málefni aldraðra.

Um 5. gr.


    Hér er lagt að kveðið verði með skýrum hætti á um við hvaða ráðherra er átt þegar vísað er til ráðherra í 16. gr. laganna.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra,
nr. 125/1999, með síðari breytingum (stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á umsjón með málefnum Framkvæmdasjóðs aldraðra í tilefni af forsetaúrskurði í maí 2013 um skiptingu verkefna milli ráðherra velferðarráðuneytisins.
    Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fer samstarfsnefnd um málefni aldraðra með ýmis verkefni er tengjast málaflokknum, svo sem að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um málefni aldraðra, stjórna Framkvæmdasjóði aldraðra og gera tillögur til ráðherra um úthlutun úr honum. Í nefndinni sitja fimm manns og er kostnaður við störf hennar ásamt kostnaði við ritara greiddur úr sjóðnum. Þau útgjöld teljast þó óveruleg eða 0,7–0,8 m.kr. á ári. Með frumvarpinu er lagt til að núverandi fyrirkomulagi verði breytt þannig að skipuð verði sérstök fjögurra manna stjórn yfir Framkvæmdasjóð aldraðra sem falið verði að stjórna sjóðnum og gera tillögur til úthlutunar úr honum í stað samstarfsnefndarinnar áður. Samhliða því er lagt til að sjóðurinn greiði kostnað vegna starfa stjórnarinnar auk ritara en á móti er gert ráð fyrir því að störf samstarfsnefndarinnar verði framvegis ólaunuð og að sjóðurinn greiði ekki fyrir ritara á hennar vegum.
    Verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd er ekki gert ráð fyrir að það leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs umfram núverandi fjárveitingar til Framkvæmdasjóðs aldraðra.